top of page

50km hvítasunnuáskorun

Updated: Jun 7, 2022

Hvítasunnuáskorun Fjallafjörs 2022 gekk vonum framar þegar tuttugu og tveggja manna hópur lauk 50 kílómetra göngu í blíðskaparveðri.


Klukkan sjö að morgni laugardags, hvítasunnuhelgina 2022, lagði hópur á vegum Fjallafjörs af stað í Hvítasunnuáskorun Fjallafjörs 2022. Vitaleiðin var gengin á einum degi, með smá krókum, svo ferðin endaði í 50 kílómetrum. Glaðværð, þrautseigja, jákvæðni og gleði ríkti á

meðal þátttakenda sem hóf ferðina við Strandarkirkju í Selvogi og heimsótti m.a. Selvogsvita, Þorlákshöfn, Hafnarnesvita, Eyrarbakka, Stokkseyri og lauk ferðinni við Knarrarósvita.

Þátttakendur voru vel undirbúnir, höfðu öll lokið 33 kílómetra undirbúningsferð, sum hver fleiri en einni, og haganlega var pakkað í bakpoka og trúss en farangri og drykkjum var ekið á milli nokkurra staða á leiðinni. Að auki voru þátttakendur boðnir velkomnir í íþróttamiðstöðina í Þorlákshöfn og að nýta góða aðstöðu á tjaldsvæðinu á Eyrarbakka en það var kærkomið að eiga slíka áningarstaði á leiðinni.


Kristey Briet Gísladóttir sá um drykkjarstöðvar og trúss og segir margar góðar minningar hafa skapast í ferðinni en "áningin á Eyrarbakka sé einkar minnisstæð. Veðurblíðan, góð aðstaða á tjaldsvæðinu, löng og góð nestispása og notaleg stemming meðal þátttakenda gerir það að verkum að þessi minning er ein af þeim sem stendur uppúr - og auðvitað að sjá hópinn nálgast lokatakmark sitt við Knarrarósvita".


Ein þeirra sem lauk áskoruninni með bros á vor er Jóhanna Björk Gísladóttir segir upplifunina vera einn af hápunktunum enda áskorunin verðug:

"Þessi dagur verður sannarlega einn af hápunktunum þegar litið verður um öxl um

ókomna tíð"


Áskorun af þessu tagi er ekki á allra færi en Fjallafjör leggur mikið upp úr því að skipulagið sé gott og til þess fallið að auka líkur á því að þátttakendur geti tekist á við áskorunina með bros á vör og gera sem flestum kleyft að takast á við og ljúka áskoruninni. "Þetta er svolítið bara að setja einn fótinn fyrir framan hinn, þá kemur þetta hægt og rólega og við klárum þetta" segir Hanna Guðmundsdóttir, annar fararstjóra ferðarinnar.



Svanborgu Hilmarsdóttur hefði ekki grunað fyrir ári síðan að hún myndi ganga 50 kílómetra dagsgöngu en tók áskoruninni og skoraði einnig á systur sína að koma með. Þær nutu ferðarinnar í botn og segir Svanborg m.a.:

"Eftir tæpa 50km, rétt áður en komið var að seinasta vitanum voru fæturnir farnir að vera þungir og stífir en stemmningin var eitthvað svo frábær í hópnum og veðrið frábært. Við skelltum Chariots of fire (Slow motion hlaupa laginu) á símann og tókum seinustu metrana á skokkinu, smá keppni í lokin. Alveg ótrúlegt að við höfum átt það inni. Æðisleg ferð í alla staði, frábært utanumhald hjá fararstjórum og trússurum."



Guðmundur Örn Sverrisson, fararstjóri og skipuleggjandi ferðarinnar, segir undirbúning

þátttakenda skipta höfuðmáli þegar kemur að ferð af þessu tagi. Þetta snúist ekki eingöngu um líkamlegan styrk heldur gönguþol, seiglu, jákvæðni og færni til þess að takast á við göngu til lengri tíma.

"Á þessari leið er ekki mikil hækkun

en vegalengdin er allnokkur og það

sýndi sig að undirbúningur

þátttakenda, bæði líkamlega og

andlega, var til fyrirmyndar enda

stemmingin í hópnum frábær frá

upphafi til enda. Það eru algjör

forréttindi fyrir okkur, sem

skipuleggjum ferðir á borð við þessa,

að fylgjast með þátttakendum ná

markmiðum sínum og njóta

ferðarinnar, þó vegalengdin sé í

lengra lagi"


Hann segist ekki vita til þess að leiðin hafi verið gengin á einum degi áður en þó sé ekki loku fyrir það skotið. Leiðin hafi verið kynnt sem Vitaleiðin fyrir tæpu ári síðan, þann 12. júní 2021, og strax þá hafi undirbúningur fyrir Hvítasunnuáskorun Fjallafjörs 2022 hafist. Undirbúningur fyrir Hvítasunnuáskorun 2023 sé nú þegar vel á veg komin og opnað hafi verið fyrir skráningu í ferðina en þá verður gengið um Norðurárdal, yfir Grjótháls og um Þverárhlíð, samtals um 42 kílómetrar með um 550 metra hækkun.


Helena Benjamínsdóttir minnist ferðarinnar með þakklæti, dagurinn hafi verið æðislegur, veðrið frábært og félagsskapurinn yndislegur. Johnny Cash hafi fylgt henni á leiðinni með laginu "I Walk the Line".



553 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page