top of page

Skilmálar

 

Hugsjón ehf. rekur ferðaþjónustu undir starfsheitinu “Fjallafjör” sem hlotið hefur leyfi 2021-27 til sölu dagsferða frá Ferðamálastofu.

 

Breytingar á dagskrá

Fjallafjör áskilur sér rétt til að fresta ferðum og/eða breyta áætlun af öryggisástæðum, vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi þátta, þ.m.t. en ekki bundið við náttúruhamfarir og sóttvarnaraðgerðir sem og vegna ónógrar þátttöku í ferðum.  Breytingar á dagskrá af öryggisástæðum veitir ekki rétt til endurgreiðslu.

 

Staðfestingargjald og endurgreiðslur

Staðfestingargjald eru 25% af heildarfjárhæð þátttökugjalds og er óafturkræft.  Ein nafnabreyting er leyfileg fyrir hverja bókun án kostnaðar.  Nafnabreyting skal gerð skriflega með tölvupósti á fjallafjor@fjallafjor.is.  Afbókun með meira en 30 daga fyrirvara frá undirbúningsfundi/fyrsta viðburði dagskrár veitir 75% endurgreiðslu, afbókun með meira en 20 daga fyrirvara frá undirbúningsfundi/fyrsta viðburði dagskrár veitir 50% endurgreiðslu, afbókun með meira en 10 daga fyrirvara frá undirbúningsfundi/fyrsta viðburði dagskrár veitir 25% endurgreiðslu en berist afbókun með skemmri fyrirvara er ekki veitt endurgreiðsla.  Ef dagskrá er einhliða aflýst af hálfu Fjallafjörs er þátttökugjald að fullu endurgreitt.  Þátttakendur eru hvattir til þess að kynna sér forfallatryggingar sínar.

Birting myndefnis

Þátttakendur samþykkja að starfsfólki Fjallafjörs sé heimilt að taka myndir og/eða myndbönd af þátttakendum og nota í birtingu á vefsíðu og á samfélagsmiðlum enda sé myndefnið af jákvæðum toga og varpi hvorki rýrð á þátttakendur né sé ærumeiðandi á nokkurn hátt.  Þátttakendur geta ávallt hafnað birtingu myndefnis með því að senda póst á fjallafjor@fjallafjor.is.

Heilsufar

Þátttakendur bera ábyrgð á að velja sér ferðir í samræmi við heilsufar og líkamlega getu. Þátttakendur með alvarlega sjúkdóma, bráðaofnæmi eða aðra heilsufarslega kvilla sem bregðast þarf við með skjótum hætti eru hvattir til þess að upplýsa fararstjóra um slíkt.  Trúnaður ríkir um heilsufar á milli þátttakenda og fararstjóra/stjórnenda.

Áhætta

Ferðum Fjallafjörs fylgir óhjákvæmilega áhætta fyrir þátttakendur, hvort heldur sem er í óbyggðum, á hálendi, láglendi, gangandi, akandi, syndandi, hjólandi eða með öðrum fararmáta, þ.m.t. ferðum til og frá upphafs- og lokastaða ferða.  Fararstjórar og leiðtogar Fjallafjörs leggja sig fram um að lágmarka áhættu í ferðum félagsins.  Með þátttöku í ferðum Fjallafjörs taka þátttakendur upplýsta ákvörðun um að taka þátt í ferðum á eigin ábyrgð og skuldbinda sig til þess að gera ekki kröfur á Hugsjón ehf., Fjallafjör, starfsfólk og verktaka á vegum félagsins, nema um vítavert gáleysi sé að ræða.  Ennfremur skuldbinda þátttakendur sig til þess að fylgja fyrirmælum starfsfólks Fjallafjörs í hvívetna, fylgja öryggisreglum sem kynntar eru á vefsíðu Fjallafjörs og á undirbúningsfundum.

Samskipti

Með skráningu samþykkja þátttakendur siðareglur Hugsjónar ehf. - Fjallafjörs.

Boð í ferðir, almenn upplýsingagjöf og samskipti ferðahópa fer fram í gegnum Facebookhóp (e. Facebook Groups) viðkomandi hóps. Samskipti milli þátttakenda og fararstjóra fara einnig fram í hópunum, samskipti milli þátttakenda og stjórnenda fara fram í gegnum miðla Fjallafjörs. Þátttakendum ber að kynna sér upplýsingar um nauðsynlegan búnað í ferðum.

Tryggingar

Fjallafjör tryggir hvorki þátttakendur, búnað né farangur þeirra og eru þátttakendur hvattir til þess að vera með viðeigandi slysatryggingar, sem og ferða- og forfallatryggingar.  Þátttakendur taka þátt í ferðum Fjallafjörs á eigin ábyrgð.  Séu fyrirmæli fararstjóra og stjórnenda Fjallafjörs virt að vettugi getur slík háttsemi bakað viðkomandi þátttakanda skaðabótaskyldu, enda séu fyrirmælin gefin með hliðsjón af öryggi þátttakenda.

bottom of page