top of page
IMG_0204.jpeg

Vatnaleiðin
Skáli & trúss

Fjallafjör býður upp á skemmtilega ferð um Vatnaleiðina 12. - 14. ágúst 2022.  Fararstjórn, skálar, trúss og rúta að upphafsstað innifalið.

Þátttökugjald: 49.900 krónur.

Vatnaleiðin er ákaflega falleg gönguleið milli nokkurra vatna á Snæfellsnesi.  Ferð okkar hefst í landi Hallkelsstaðahlíðar, við Hlíðarvatn, og er gengið inn Hellisdal og niður Klifsdal að Hítarvatni að kvöldi föstudags.  Á laugardegi er gengið um Hólmshraun framhjá Hólmi, Rauðukúlu og Rauðukúlum, inn Þórarinsdal, yfir Gvendarskarð og niður Hafradal að Langavatni.  Langavatnsdalur genginn austan megin við Langavatn að Torfhvalastöðum.  Á sunnudegi er gengið yfir Beilárheiði framhjá Vikravatni að Hreðavatni þar sem rúta sækir hópinn og ekur í bílana.

Athugaðu hvort stéttarfélagið þitt bjóði upp á niðurgreidda ferðaávísun hjá Fjallafjöri og skelltu þér með í skemmtilega ferð á hagkvæmu verði!

Dagskrá ferðarinnar

Föstudagur

Lagt verður af stað frá Borgarnesi klukkan 16:00 að Hallkelsstaðahlíð þar sem gangan hefst og bílar eru geymdir yfir helgina.

Komið verður að Hítarvatni um 22 eftir 12-13 km göngu (vegalengd og tímasetning fer eftir vatnsmagni í Hlíðarvatni) þar sem þátttakendur koma sér fyrir á náttstað og boðið verður upp á kvöldhressingu.

Laugardagur

Morgunverður er á milli klukkan 8 og 9.  Gengið er frá farangri og honum komið fyrir í trússbíl fyrir klukkan 9:45.  Gangan hefst klukkan 10:00.  Komið verður að Torfhvalastöðum um kvöldmatarleytið eftir um 23 km göngu.  Þátttakendur koma sér fyrir á náttstað á meðan grillin eru hituð og að kvöldi verður sungið!

Sunnudagur

Morgunverður er á milli 8 og 9. Gengið er frá farangri og honum komið fyrir í trússbíl fyrir klukkan 9:45.  Gangan hefst klukkan 10:00.  Komið verður að Hreðavatni um seinnipart dags þar sem rúta bíður hópsins og ekur að Hlíðarvatni þar sem ferðinni lýkur formlega milli sex og sjö að kvöldi.

Frávik

Í langri helgarferð sem þessari er margt sem getur haft áhrif á dagskrá og tímasetningar.  Því ber að líta á tímasetningar sem viðmið.  Forsenda fyrir að ferðin verði á dagskrá á þessum tíma er að hún rúmist innan reglna um samkomutakmarkanir.

Undirbúningsfundur

Undirbúningsfundur fyrir þátttakendur er haldinn um viku fyrir brottför.  Dagsetning auglýst síðar.

Gisting

Skálarnir sem gist er í eru svokölluð fjallhús, en svo nefnast gangnamannaskálar Mýramanna. Vatnssalerni er í báðum skálum en lítið er um nútímaþægindi - enda eru þetta fjallhús :D

Þátttakendum er velkomið að gista í tjöldum fyrir utan skálana og nota þá að öðru leyti til eldamennsku, skjóls, til að geyma farangur og þess háttar, kjósi þau svo.

Fararstjórar ferðarinnar

bottom of page