Fólkið okkar
Fjölbreyttur hópur frábærra fararstjóra leiðir ferðir Fjallafjörs!
Auður
Auður er amma sem nærist á að vera úti í náttúrunni, bæði innanlands og utan. Hún ferðast gjarnan um heiminn á hjóli og gengur þess á milli um hóla og hæðir. Auði finnst fátt skemmtilegra en að stúdera kort og skoða möguleika á nýjum leiðum og örnefni. Auður hefur lokið námskeið í skyndihjálp í óbyggðum og námskeiði í rötun svo eitthvað sé nefnt.Mottó Auðar er “skítugu börnin skemmta sér best” enda hefur hún einstakt lag á að ná þvi að koma skítug og auðvitað skælbrosandi heim!
Sími: 844-5733
netfang: audur.johannsdottir@gmail.com
Guðmundur
Guðmundur er sex barna faðir og heldur því fram að formúlan n+1 gildi bæði um fjölda reiðhjóla og barna. Hann býr ásamt konu sinni og börnum rétt utan borgarmarkanna þar sem lítt snortin náttúra er í nokkurra mínútna göngufjarlægð og hafa hjónin boðið ótal ferðafélögum í eitthvað heimabakað eftir góða gönguferð í nágrenni heimilisins.
Guðmundur er útivistarunnandi í víðum skilningi og veit fátt betra en að vera einn uppi á hól með uppáhalds nestið sitt - sviðasultu og rófustöppu - ef undan eru skilin ferðalög með fjölskyldunni.
Guðmundur starfar sem framkvæmdastjóri Hugsjónar ehf. sem á og rekur Fjallafjör, var fararstjóri hjá Ferðafélaginu Útivist á árunum 2013-2021 og skálavörður á árunum 2011-2012. Hann hefur meðal annars lokið reglubundnum námskeiðum í skyndihjálp í óbyggðum, rötun, vetrarfjallamennsku, undirbúningsnámskeiði í jöklaleiðsögn, jöklaleiðsögn 1 hjá AIMG, hópstjórn og komið að þjálfun fjölmargra fararstjóra.
Sími: 497-0090 (í neyð: 697-6699)
Netfang: gudmundur@fjallafjor.is
Eva Íris
Eva Íris er gift, tveggja barna móðir alin upp í Árbænum þar sem hún tók m.a. virkan þátt í Skátafélaginu Árbúum. Um unglingsaldur lá leiðin í Hjálparsveit skáta í Garðabæ en hún starfaði með sveitinni þar til hún fluttist búferlum til Noregs þar sem hún starfaði meðal annars fyrir Rauða Krossinn. Í dag starfar Eva sem verkefnastjóri fyrir Krabbameinsfélag Íslands þar sem hún stýrir m.a. verkefnum sem tengjast aðildarfélögum KÍ og stærri viðburðum á borð við Styrkleikana sem haldnir verða í september 2021. Eva hefur áhugaverða starfsreynslu en á ferilskránni er vafasöm færsla frá einni að þekktari ballhljómsveitum níunda og tíunda áratugarins - þið yfirheyrið hana á fjalli! Eva Íris hefur yfirgripsmikla þjálfun og reynslu úr björgunarsveitarstarfi og skyndihjálparkennslu en það sem mestu skiptir er að hjartað og brosið er ávallt á sínum stað - hvernig sem viðrar!
Kristey
Kristey er sannkölluð ofurmamma fimm drengja og súperstjúpa einnar stúlku. Kristey er límið í Fjallafjöri, heldur utanum skráningar og dælir ást og kærleika í starfið. Kristey sinnir ekki eingöngu öflugri Fjörkálfaframleiðslu fyrir leiðtoga framtíðarinnar, hún tók virkan þátt í unglingastarfi Björgunarfélags Árborgar, er félagi í Slysavarnardeildinni Þórkötlu og starfar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Sími: 497-0090
Netfang: kristey@fjallafjor.is
Kristjana
Kristjana er þaulreynd göngukona, fararstjóri, hestakona, margföld amma og fjórföld langamma! Þær eru fáar náttúruperlurnar sem Kristjana hefur ekki notið, annað hvort á tveimur jafnfljótum eða ríðandi - en alltaf í góðra vina hópi.
Kristjana byrjar flesta daga á hreyfingu, stundar líkamsrækt, spinning, hestamennsku, fjallgöngur og almenna góðmennsku allan liðlangann daginn og það eru mikil forréttindi að njóta náttúrunnar í hlýjum faðmi Kristjönu.
Ulrike
Ulrike er tómstundafræðingur, hestakona og náttúruunnandi af guðs náð. Hún hefur ferðast víða hérlendis og erlendis, starfar á sumrinu sem hestaleiðsögumaður og tekur núna sínu fyrstu skref sem fararstjóri í göngum Fjallafjörs.
Lífsmottó Ulrike er "byrjum daginn með bros á vör" og hún veit fátt betra en að slaka á heima eftir góðan dag úti í náttúrunni.
Uppáhaldsnestið hennar er dökkt brauð með skinku og osti og alveg sama í hvaða ferð hún fer - það er alltaf nammi í bakpokanum!
Sverrir
Útivistarfræinu hjá Sverri var plantað á barnsaldri því fjölskyldan fór alltaf í nokkrar tjaldútilegur á sumrin þegar hann var krakki. Sá hinn sami var hins vegar afspyrnulatur við að ganga, alltaf síðastur en eitthvað rættist nú samt úr honum! Sverrir á góðan fjallabíl og fjallafellihýsi og finnst fátt skemmtilegra en að ferðast um óbyggðir. Hann er einnig svo lánsamur að fá að vinna við áhugamálin sín sem eru bókmenntir en Sverrir er íslenskukennari við Kvennaskólann í Reykjavík.
Mottó Sverris er: Náttúran er málið!
Sími: 865-6158 - netfang: sverrir.arnason@gmail.com
Guðrún
Guðrún Hildur, sem alltaf er kölluð Dunna, er gift, tveggja barna móðir sem býr á Suðurnesjum. Hún er útskrifaður gönguleiðsögumaður frá Leiðsöguskólanum í Kópavogi og hefur yndi af hvers kyns útivist, s.s. fjallgöngur, hlaup, skíði og laxveiði.
Dunna er ekki bara gönguleiðsögumaður og mamma, hún er ÍAK einkaþjálfari og hefur um 15 ára reynslu af þjálfun. Þá stundar hún bæði söng- og píanónám og á vafalaust eftir að halda uppi fjörinu á kvöldvökum og fjallstoppum!
Uppáhalds fjallanestið er flatkaka með hangikjöti og Snickers er staðalbúnaður í pokanum.
Fjallgöngur og útivist veita Dunnu aukna lífsorku og gleði í hjarta sama hvernig viðrar - líka í roki og rigningu!
Björn
Björn Bjarnason, ekkiráðherra, er oftast kallaður Bjössi. Bjössi er traustasta afturganga sem fyrirfinnst en hann gengur allajafna aftastur í ferðum og leggur sitt af mörkum í þágu öryggis þátttakenda með því að passa uppá að enginn verði viðskila við hópinn og liðsinna þeim sem á því þurfa að halda - alveg sama hver ástæðan er. Plástur eða pepp - Bjössi er til staðar!
Bjössi er þrefaldur afi - þolinmóður og geðgóður eftir því - og á yfirleitt eitthvað gotterí í pokahorninu til þess að gleðja barnabörnin, nú eða ferðafélagana ef svo ber undir.
Uppáhaldslitur Bjössa er gulur en ólyginn segir að ekki sé til sú gerð af flík að Bjössi eigi ekki að minnsta kosti eina slíka í gulu, sokkar, peysa, jakki og jafnvel fylgihlutir á borð við hjólatöskur, úr og fleira.
Bjössi er ótæmandi uppspretta fimmaurabrandara og nokkrir þeirra eru reyndar svo djúpir að verðbólgan hlýtur að hafa náð þeim.
Þór
Þór er úr Sandgerði og er elstur af þremur bræðrum. Hann hefur alla tíð stundað útivist og hreyfingu, þykir ekkert betra en að vera úti í náttúrunni og helst uppá fjöllum. Hans helstu áhugamál eru einnig CrossFit, golf og veiði. Þór hefur gaman að því að skora á sjálfan sig og er mikil keppnismanneskja.
Þór starfar einnig á The Retreat hótelinu við Bláa Lónið sem gestgjafi ásamt því að leiðsegja reglulega göngur upp Þorbjörn og nágrenni.
Uppáhalds nesti á fjöllum er skógarberjamix, flatkökur með hangikjöti og Gifflar snúðar. Uppáhalds landshluti eru Vestfirðir. Mottó Þórs hefur alltaf verið að lifa lífinu lifandi!
Ágústa
Ágústa er gift, fjögurra barna móðir, búsett í Reykjavík á þeim slóðum sem stutt er að fara í náttúruna og hlaða batteríin. Hennar helstu áhugamál eru útivist af ýmsum toga, s.s. hjólreiðar, fjallgöngur, hlaup og sjósund. Hún hefur mjög gaman af því að skoða fallega staði og nýtir frítíma sinn ósjaldan í að ferðast um landið og skemmtilegast er þegar hún nær allri fjölskyldunni með!
Ágústa er leikskólakennari og hefur mikla trú á að börn geti haft jákvæð áhrif á líf sitt og nám með því að afla sér þekkingar í með því að rannsaka og prófa sig áfram. Það er gaman að fylgjast með þeim uppgötva nýja hluti og sigra sjálf sig og þar gefur náttúran þeim óendanleg tækifæri.
Ágústa leggur mikið upp úr jákvæðni og mottóið hennar er: Jákvæð orka dregur að sér jákvæða orku
Eydís
Eydís er eiginlega alin upp á jökli en í æsku fór fjölskylda hennar í óteljandi jeppaferðir um hálendið - allan ársins hring. Þegar barnskónum sleppti reimaði hún á sig gönguskóna og fór að stunda fjöllin á fæti enda eru góðir gönguskór talsvert ódýrari í rekstri en fjallajeppi. Tækjadellan situr þó alltaf í henni og fær hún töluverða útrás fyrir hana í björgunarsveitinni en Eydís er virkur meðlimur í Hjálparsveit skáta í Hveragerði.
Eydís er mikið náttúrubarn og nýtur sín best þegar hún fær að vera sem lengst fjarri mannabyggðum. Þá skiptir engu máli hvort gist er í fjallaskála, í tjaldi eða í snjóhúsi, svo framarlega sem svefnpokinn er hlýr og félagsskapurinn góður.
Eydís hefur lokið fjölda námskeiða á sviði ferðamennsku og björgunarstarfa, þ.m.t. WFR, rötun, fjallabjörgun og fjallamennsku - svo eitthvað sé nefnt!